30 október 2005

35 vikur búnar

Næsta vika
Vika 36 : 31. október 2005 til 6. nóvember 2005
Barnið er nú 33 sm og vegur yfir 3 kg.
Líkami barnsins byrjar nú að verða bústinn (þybbinn).
Móðirin getur nú byrjað að finna fyrir samdrætti í leginu, svokölluðum fyrirboðahríðir (fyrirboðasamdrætti), sem nota má til að æfa öndunartækni.

xx Rúna

27 október 2005

Að vera veik eða ekki veik

Hef ekki farið út úr húsi í allan dag. Það er nú LANGT síðan það hefur gerst, er vön að fara allavega í einn göngutúr eða svo. Nú eru komnar 4 svefnlausar nætur, tek kannski aðeins of sterkt til orða, hef náttúrulega sofið eitthvað en er samt alltaf meðvituð um mig. Nú er ekki nóg að vera ólétt og svefnvana þá er ég komin með svo mega mikið kvef að það trillar úr augunum á mér og lekur endalaust úr nefinu. SEM þýðir að ég er alltaf að snýta mér og þá fær maður þennan skemmtilega roða og þurrk á nefið eða fyrir neðan nefið. Jákvæðnin streymir alveg hreint frá mér þessa stundina. Geisp. Held ég fari bara og hiti mér te.

Svo held ég að ég breytist bráðum í sjávardýr, mesta tilhlökkunarefni mitt þessa dagana er að fara í sturtu eða bað - er komin með svaka þörf fyrir að vera í vatni, borða ávexti á kvöldin, já, eða það sem ég kemst í tæri við, og get ekki setið lengur en í nokkrar mínútur í einu því þá langar mig að fara að gera eitthvað allt annað, stend upp og reyni að finna mér eitthvað að gera. Nei, viti menn, kemur ekki í ljós að ég hef ekkert annað að gera en að læra. Innihaldsríkt líf það. Hugsa með mér að ég geti nú hangið og horft á sjónvarpið um kvöldið en sjónvarpsefnið hérna á Íslandi er hreint og beint ömurlegt. Já, ömurlegt, ekkert nema raunveruleikasjónvarpsþættir sem ég þá horfi á og áður en ég veit af verða þeir örugglega uppáhaldas sjónvarpsefni mitt.

Held ég ætli ekki að lesa þessar færslur mínar aftur þegar við ætlum að eiga annað barn, ég skrifa bara það neikvæða við óléttuna og ef ég les þetta aftur hljómar meðgangan eins og hálfgert helvíti. En þannig er þú nú bara, allir þeir dagar sem ég skrifa ekki eru bara það góðir og skemmtilegir að mér finnst þeir ekki frásagnarverðir. Þarf að hugsa aðeins betur um þessa pælingu.

xx Rúna

25 október 2005

Mæðraskoðun með meiru

Daginn, daginn, daginn

Mættum enn og aftur í mæðraskoðun í dag en þetta var ekki neitt venjuleg skoðun því Sonja var í verknámi! Það var hin skemmtilegasta tilbreyting á annars einhæfri mæðraskoðun. Blóðþrýstingurinn er 120/70 sem telst fullkomlega eðlilegt. Barnið er búið að skorða sig betur núna og kom einnig í ljós að ég er komin með hina víðfrægu grindargliðnun Á FYRSTA STIGI vil ég meina. Það var nefnilega þannig að ég fór með Hervöru og Ástu í kröfugönguna í gær og var á vappinu í rúma tvo tíma og þegar ég lagðist upp í rúm um kvöldið var ég komin með þessa skemmtilegu verki í lífbeinið (pent orðað!)
Jæja, hvað um það. Fór í göngu með Mugg áðan og það er víst ekki eitthvað sem ég á eftir að gera mikið af næstu vikurnar því lífbeinið tók af stað. Það er nú bara eitthvað aumt brjósk sem heldur beininu saman og mamma sagði mér að barnið væri farið að ýta á það svo að þess vegna finnur maður fyrir þessum ónotum.

Það skemmtilega við mæðraskoðunina var fyrst og fremst að Sonja var þarna og svo þegar Gígja, ljósmóðirin, athugaði hvernig barnið lægi, hve langt það væri komið niður og svona spurði ég Sonju hvort hún vildi prufa ... enda í skólanum, strangt til tekið ... hún var til í það og fann hausinn á barninu. Gígja spurði hvort pabbinn, a.k.a Sverrir, vildi finna og ég hélt hann myndi nú ekki láta verða að því þar sem hann er svo smeykur við að meiða barnið, en hann lét til leiðast og fann líka fyrir höfðinu. Svo fann Sonja bakið og rassinn og allt svoleiðis.

Hin besta skoðun að mínu mati- OG - Sonja er komin með mega flotta klippingu!

xx Rúna

23 október 2005

Næsta vika...

Vika 35 : 24. október 2005 til 30. október 2005
Barnið vegur nú 2,7 kg og mælist 32 sm.
Nú er barnið komið með táneglur og neglurnar á fingrunum geta náð fram fyrir fingurgómana og getur barnið því klórað sig nú þegar.
Útskriftarveislan hjá Hervöru var í gærkvöldi, daman orðin lögfræðingur núna - ekki amalegt það. Til hamingju elsku Hervör og takk fyrir kaffið og bíltúrinn!
Vorum að koma heim úr dýnuleiðangri með mömmu hans Sverris og fengum þessa mega fínu dýnu í Fífu svo að núna þarf krílið ekki að sofa á hörðum rimlunum.
xx Rúna

21 október 2005

33 vikur og 5 dagar

Já, það er ekki hægt að segja að maður verði neitt nettari með tímanum. Nú eru bara 44 dagar til stefnu...


Skvísa sæta í góðu tómi - þetta er líf kattarins.

Ekki hægt að skilja Mugg út undan, vitanlega kom hann með okkur á Kirkjubæjarklaustur í sumar.

Þarna erum við í Mexico, komin 14/15 vikur á leið.

Þá eru komnar myndir af allri hersingunni.

xx Rúna


16 október 2005

6 vikur eftir!!

Vika 34 : 17. October 2005 til 23. October 2005
Samkvæmt fræðunum er barnið oftast lífvænlegt, þó það fæðist fyrir tímann, ef það hefur náð framangreindri þyngd.
Börn sem fæðast fyrr en hér er um að ræða hafa þó góða möguleika á að lifa vegna nútíma tækni við umönnun fyrirbura.
Neglur á fingrum eru nú fullvaxnar.
Barnið er ansi upptekið við að undirbúa sig fyrir lífið utan legsins. Það æfir sig að sjúga, gerir öndunaræfingar, blikkar augunum, snýr höfðinu, tekur utan um það sem það nær í (hina höndina og naflastrenginn) og réttir úr fótunum. Húð barnsins er að verða mjög mjúk og ekki eins gegnsæ. Barnið vegur nú um 2,1 kíló og lengd frá höfði að rófubeini er um 30 sm.
Nú mun barnið nýta sér allt það pláss sem það mögulega getur og þrýsta á allt sem það getur, til dæmis lungun. Ef þér finnst erfitt að ná andanum getur hjálpað að sitja eða standa. Ef þú hefur áhuga á fara á námskeið til undirbúnings fæðingunni eða foreldrahlutverkinu þá er ekki seinna vænna en að drífa sig. Það er líka tímabært að byrja að taka til föt á barnið.

Jís, ekki langt eftir. Búin að redda þessu með fötin, mamma besta ætlar að þvo þau og gera þau til fyrir okkur. Við fórum í bæinn um daginn og keyptum dúnsæng svo það er líka tilbúið. Erna og Friðþjófur komu með vagn sem við ætlum að nota sem útivagn - þau létu okkur líka fá skiptiborðið og baðið! Þá er bara að ná í rúmið hans Sverris til ömmu hans og mamma hans ætlar að redda dýnunni.

Tvær vikur eftir að meðgöngujóganu svo þetta styttist allt saman. Hver segir svo að tíminn líði ekki hratt? Ekki ég allavega. Nú líða vikurnar mega hratt, eiginlega of hratt. Það er samt gott því ég er komin með nett nóg af því að vera eins og bolti um mig miðja, ekkert nema brjóst og magi, íþróttaföt og þrútið andlit.

xx Rúna

12 október 2005

Aðeins að fara fram úr mér...

Nú er ekki skóli fyrr en eftir 12 daga og ég ætlaði mér að rumpa af einni ritgerð á þeim tíma en er algerlega að mygla hérna heima. Vakna - sturta - borða - lesa - sofa - borða - lesa - horfa á sjónvarp - lesa - sofa. Svona er dagurinn minn, gerist nokkuð villt stundum og raða þessum athöfnum öðruvísi niður.... á góðum degi. Get ekki einu sinni farið í góða göngutúra lengur því ég er orðin svo mikill óléttuaumingi. Ætlaði áðan, full eldmóð, að labba út á Eiðistorg og fara á bókasafnið en þegar ég var komin að Való var mín búin á því. Hugsaði með mér hvort ég ætti að snúa við og ná í bílinn en ákvað að harka að mér og ljúka ætlunarverkinu. Viti menn, ég komin að sundlauginni (hálftíma seinna eða svo) og sé ég ekki gullna bílinn renna að sjoppunni. Mamma sæta að kaupa sér víkingalottó með Tómasi og ég ekki lengi að vippa mér að þeim og sníkja far. Muggur fékk meira að segja að fara upp í hinn gullna bíl!
Sverrir fór svo í vinnuna og ég ætlaði mér að lesa af mér hausinn en sofnaði þess í stað. Er algerlega andlaus fyrir þessa ritgerð sem ég ætlaði mér að klára. Það á ennþá eftir að redda barnafötum, -rúmi, öllu sem forliðurinn barn kemur fyrir í - meira að segja barninu sjálfu. Jæja, þá ákvað ég að baka köku því það er aðalskemmtiefni mitt þessa dagana - reyndi að lesa svo eftir það en allt kom fyrir ekki. Tilhlökkunarefni kvöldsins er fyrirsæturaunveruleikasjónvarpsþáttur sem gefur manni ekki neina inspirasjón fyrir ritgerðir en ég ætla að láta mig hafa það að horfa á þáttinn og steikja það litla sem eftir er af heilanum.
xx Rúna súmó

09 október 2005

Næsta vika - vika 33 !!

10. October 2005 til 16. October 2005

Barnið vegur nú næstum 2,2 kg.
Þvermál höfuðsins er um 8,5 sm.
Sethæðin, frá rófubeini til hvirfils er 30,5 sm.

Allt sem barnið þarfnast núna er meira af efninu „surfactant“ sem þarf að þekja lungun svo og meiri fitu. Það á mjög mikla möguleika á að lifa af ef það myndi fæðast núna. Barnið er nú farið að blikka augunum og byrjað að fókusera á hluti nálægt sér s.s. eigin útlimi og naflastreng.

Merkilegt nok! Barnið rétt 2.2 kíló, einmitt það sem ég hef þyngst um... já, nokkrum sinnum það allavega. Átta vikur til stefnu en ég held það komi fyrr, veit ekki af hverju en hef það á tilfinningunni.

xx Rúna

06 október 2005

Stór stærri ... bráðum stærst




31 vika og 4 dagar

Ég fer ört stækkandi á alla kanta og ekki leynir þreytan sér í andlitinu - allt þó fyrir gott málefni, segjum það bara.

xx Rúna

04 október 2005

Fótleggur og fleira

Sat í gærkvöldi í eldhúsinu hennar mömmu og Erna og Sverrir (litlu) voru með mér, við sátum þarna í mestu makindum þegar ég sé allt í einu móta fyrir öðrum fótlegginum á barninu!!! Ég átti náttúrulega ekki til orð, ég svo spennt að ég sagði þeim að koma og finna hreyfingarnar (Sverrir var ekki enn búinn að finna neina hreyfingu) og þá lætur barnið ekki sitt eftir liggja í sýningu kvöldsins og við finnum fyrir hælnum komu "út úr" maganum hægra megin neðan við rifbeinin.
Ég hljóp heim stuttu seinna með tíðindin og við reyndum að fá endursýningu svo Sverrir gæti fundið en þá var greinilega svefntími hjá barninu því það lét ekkert á sér kræla... svona dugar ekki að vera frekur á hæfileika lillunnar/lillans.

Þá var ég komin 31 vikur og 2 daga

xx Rúna

02 október 2005

9 (eða 11) vikur eftir


Vika 32 : 3. October 2005 til 9. October 2005

Barnið vegur 1,9 kg og er orðið yfir 30 sm.
Þvermál höfuðsins er 8,2 sm.
Fitulagið undir húðinni þykknar.
Táneglur vaxa.
Hjá drengjum koma eistun niður í punginn, frá náranum.

Í dag eru 9 vikur eftir skv. öllum mælingum - þannig að sunnudaginn 4. des. eigum við Sverrir að vera stödd á fæðingadeilidinni! Það verður spennandi að sjá próftöfluna 10. okt. og sjá hvernig þetta kemur allt saman til með að verða í desembermánuði.

xx Rúna